Lög Félagsins
1. grein
Félagið heitir Mjólkurfræðingafélag Íslands. Starfssvæði þess nær yfir allt landið. Heimili þess og varnarþing er í Reykjavík.
Félagið á aðild að Alþýðusambandi Íslands.
2. grein
Tilgangur félagsins er að sameina alla starfandi mjólkurfræðinga um hagsmunamál þessarar stéttar, svo sem kaupgjaldsmál og gerð kjarasamninga, aukin réttindi, bætt vinnuskilyrði o.s.fr. og leita samstarfs í þessu efni við önnur skyld stéttarsamtök, í samræmi við lög Alþýðusambands Íslands.
3. grein
Rétt til þess að vera meðlimir félagsins hafa allir þeir sem tekið hafa sveinspróf í iðninni og standa ekki í óbættum sökum við önnur aðildarfélög ASÍ.
Verkstjórar sem hafa eingöngu verkstjórn með höndum, hafa rétt til að vera í M.F.F.Í., en njóta þó ekki kjörgengis, kosningaréttar né atkvæðisréttar um kjaramál. Enda skulu þeir undanþegnir vinnudeilum.
4. grein
Hver sá, sem vill verða meðlimur félagsins, skal senda skrifstofu félagsins skriflega inntökubeiðni ásamt skilríkjum sbr. 3 gr. Félagsstjórnin samþykkir eða hafnar inntökubeiðni. Synjun er heimilt að kæra til næsta lögmæta félagsfundar.
Allir meðlimir félagsins eiga rétt á því, að fá félagsskírteini hjá stjórninni.
5. grein
Allir félagsmenn eru skyldir til að hlýða lögum félagsins og fundarsamþykktum og fara eftir samningum, sem það hefur gert við atvinnurekendur og aðra.
Stjórninni er heimilt að banna mjólkurfræðingi að vinna með óiðnlærðum mönnum að störfum, sem heyra undir mjólkuriðn.
Enginn getur, nema hann beri fram afsökun, sem fundur metur gilda, skorast undan því að taka á móti kosningu í stjórn eða útnefningu til annarra starfa í þágu félagsins. Skyldur er og hver maður til að taka á móti endurkosningu í tvö skipti eða gegna einhverju því starfi, sem hann er skipaður eða kosinn til næstu tvö ár, en að þeim tíma liðnum getur hann fengið sig undanþeginn því næstu tvö ár þar á eftir.
Hver félagsmaður, sem verður þess vísari, að lögbrot hafi verið framið í félaginu, er skyldugur til að lýsa því yfir við formann félagsins eða á fundi.
6. grein
Ef félagsmaður er sakaður um brot á lögum félagsins, skal leggja það mál í gerðadóm, ef félagsfundur álítur þess þörf. Skal fundur sá, er það gerir ákveða hve margir menn skulu vera í gerðardómnum og hvernig hann á að haga störfum sínum. Úrskurða má menn til fjársektar eða brottvísunar úr félaginu. Skjóta má þeim úrskurði til Alþýðusambands Íslands, en úrskurðurinn gildir þar til Alþýðusambandið ákveður annað. Ef félagsmaður skuldar fyrir meira en eitt ár, missir hann félagsréttindi sín enda hafi félagsgjöld hans ekki verið dregin af launum og hann látið undir höfuð leggjast að tilkynna skrifstofu félagsins um það. Tveggja ára skuld varðar útstrikun úr félaginu ef lögmætur félagsfundur sker svo úr.
7. grein
Úrsögn skal vera skrifleg og sendast skrifstofu félagsins. Sá er segir sig úr félaginu, skal láta félagsskírteini sitt fylgja úrsögninni. Enginn getur þó sagt sig úr félaginu eftir að vinnustöðvun hefur verið samþykkt og þar til vinnustöðvun hefur verið aflýst.
Einnig er óheimilt að segja sig úr félaginu til þess að taka upp störf meðlima félagsins innan Alþýðusambandsins, er lagt hafa niður vinnu vegna vinnudeilu.
8. grein
Hver sá maður er rækur úr félaginu, sem að áliti félagsfundar eða gerðadóms hefur unnið því ógagn, bakað því tjón eða gert því eitthvað til vansa, sem álitið er, að ekki verði bætt með fé, svo og hver sá maður, er ekki hlýðir lögum félagsins eftir gefna áminningu eða uppkveðinn úrskurð í félaginu.
9. grein
Stjórn félagsins skipa þrír menn, formaður, gjaldkeri, og ritari, sem skipta með sér verkum, og þrír til vara. Skulu þeir vera starfandi mjólkurfræðingar við mjólkuriðnað. Kjörtímabil stjórnarmanna er 2 ár.
Í trúnaðarmannaráði eiga sæti, stjórn félagsins og tveir fullgildir félagsmenn, kosnir til eins ár í senn á aðalfundi félagsins.
Í forföllum aðalmanna taka varastjórnarmenn félagsins sæti í trúnaðarmannaráði fyrir stjórnarmeðlimi, en aðalfundur kýs tvo varamenn af sinni hálfu.
Trúnaðarmannaráðsfundur er lögmætur, ef meirihluti meðlima þess mætir. Formaður félagsins skal vera formaður trúnaðarmannaráðs, og ritari félagsins ritari þess. Formaður kveður það til funda með þeim hætti, sem hann telur heppilegastan.
Trúnaðarmannaráð félagsins er jafnframt samninganefnd þess og fer með þau verkefni og vald sem samninganefnd tilheyrir skv. lögum nr. 80/1938.
Formaður getur í nafni félagsstjórnar kallað saman meðlimi trúnaðarmannaráðs, þegar önnur félagsleg vandamál ber að höndum og ekki eru tök á að ná saman félagsfundi, og ræður úrslitum í slíkum málum einfaldur meirihluti fundar. Skulu ákvarðanir slíkra funda færast í gerðarbók félagsstjórnar, enda bornar undir álit næsta félagsfundar sem aðrar ráðstafandir félagsstjórnar milli funda.
10. grein
Formaður boðar til allra funda og stjórnar þeim. Honum er þó heimilt að setja fundarstjóra í sinn stað. Formaður undirskrifar allar gjörðir félagsins og gætir þess, að allir starfsmenn þess geri skyldu sína. Hann hefur umsjón með allri starfssemi félagsins og eftirlit með því, að lögum þess og reglum þess sé fylgt í öllum greinum. Skjöl félagsins skal geyma á skrifstofu þess.
11. grein
Ritari heldur gjörðabækur félagsins og færir inn í þær allar fundargerðir stjórnar og félagsfunda, lagabreytingar og aðalreikning. Hann skal annast bréfaskriftir félagsins í samráði við formann.
12. grein
Gjaldkeri innheimtir árgjöld og aðrar tekjur félagsins. Hann hefur á hendi fjárhald og bókfærslu, sem að því lýtur. Sjóði félagsins skal hann geyma á vöxtum í banka, sparisjóði eða öðrum jafna tryggilegum stað, allt eftir nánari fyrirmælum stjórnarinnar og viðmiðunarreglum frá ASÍ. Stjórnin ber öll í sameiningu ábyrgð á sjóðum félagsins.
13. grein
Fundi skal halda eftir því, sem efni gefast til að dómi félagsstjórnar. Þó er skylt að kalla saman félagsfund, ef minnst 6 lögmætir félagsmenn krefjast þess skriflega með tilgreindu fundarefni. Félagsfundur skal boðaður með minnst 6 daga fyrirvara í útvarpi, blöðum eða bréfum til félagsmanna, og skal fundarefni tilgreint. Félagsfundur er lögmætur ef hann er löglega boðaður, án tillits til fundarsóknar. Meirihluti atkvæða ræður afgreiðslu mála á fundum, nema þar sem öðruvísi er ákveðið í lögum þess. Atkvæðagreiðslan sé leynileg ef þess er óskað.
14. grein
Aðalfundur félagsins skal haldinn fyrir lok apríl ár hvert og skal hann boðaður með minnst eins mánaðar fyrirvara, í útvarpi eða bréflega til hvers félagsmanns. Kosning stjórnar skal vera skrifleg, leynileg, óbundin og fara fram skv. reglugerð ASÍ um framkvæmd allsherjaratkvæðagreiðslu eftir því sem við á. Um leið og aðalfundur er boðaður bréflega, skal félagsstjórn senda í sama bréfi(ábyrgðarbréf), hverjum félagsmenni kjörgögn. Senda skal einnig hverjum félagsmanni skrá yfir alla kjörgenga menn í félagsstjórn. Kosning fer þannig fram, að félagsmaður skrifar nöfn þriggja félagsmanna á atkvæðaseðil.
Atkvæði skulu talin af kjörnefnd, að viðstöddum formanni eða fulltrúum hans.
Formaður birtir úrslit kosningar á aðalfundi. Ef um jöfn atkvæði er að ræða, skal kosið leynilegri kosningu milli þeirra aðila sem í hlut eiga. Séu þá jöfn atkvæði, ræður hlutkesti. Fulltrúa í trúnaðarmannaráð, kjörnefnd og aðrar nefndir félagsins kýs aðalfundur samkvæmt uppástungum.
Á aðalfundi er heimilt að ákveða upphæð og gjalddaga félagsgjalda. Skal fráfarandi stjórn leggja fyrir fundinn tillögur þar um.
Aðalfundur kýs einnig tvo félagslegaendurskoðendur og einn til vara.
Á aðalfundi skulu lagðir fram, afgreiddir og reikningar félagsins fyrir umliðið starfsár endurskoðaðir og áritaðir af löggiltum endurskoðanda.
Á aðalfundi skal jafnframt fjalla um skýrslu stjórnar félagsins vegna síðasta starfsárs.
15. grein
Af tekjum félagsins skulu greidd öll útgjöld við störf þess, svo sem húsleiga, tillag til Alþýðusambands Íslands og annar kostnaður, sem stafar af samþykktum félagsfunda og stjórnar.
16. grein
Komi fram tillaga um að lögbinda félagið við eitthvert annað félag eða félagasamband eða slíta slíku sambandi fer um afgreiðslu slíkrar tillögu skv. lögum ASÍ.
17. grein
Lögum þessum má breyta á löglegum félagsfundi í félaginu hvenær sem er, ef breytingin hefur verið rædd á löglegum félagsfundi, en minnst viku millibil skal þó vera milli þeirra funda, sem breytingartillögurnar eru ræddar á. Allar breytingartillögur skulu vera lagðar fram við fyrri umræðu, en atkvæðagreiðslur skulu fara fram við seinni umræðu. Allar breytingartillögur skulu vera skriflegar.
Breytingar á lögum þessum ná því aðeins gildi, að þær séu samþykktar með 2/3 greiddra atkvæða, og koma þá fyrst til framkvæmda, er stjórn Alþýðusambands Íslands hefur samþykkt þær.